Section
Segment

Áhættustýring styður við samfelldan og tryggan rekstur

Skilvirk áhættustýring er grundvallarþáttur í upplýstri ákvarðanatöku og hluti af verklagi á öllum sviðum fyrirtækisins. Stefna Landsvirkjunar í áhættustýringu styður við samfelldan og tryggan rekstur sem og markmið fyrirtækisins á sviði samfélagsábyrgðar.

Markmið með áhættustýringu Landsvirkjunar:

  • Að styðja við stefnumótun og innleiðingu á stefnu
  • Að styðja við árangursríkan, stöðugan og ábyrgan rekstur
  • Að styðja við markvissa framkvæmd verka og verkefna
  • Að tryggja ásættanlega áhættutöku í samræmi við viðmið


Stjórn Landsvirkjunar samþykkir stefnu áhættustýringar.

Section
Segment

Ferli áhættustýringar

Landsvirkjun fylgir formlegu ferli áhættustýringar til að draga fram og stýra fjárhagslegri og ófjárhagslegri áhættu fyrirtækisins. Ferlið samanstendur af auðkenningu, mati, meðhöndlun og stjórnun áhættu.

 

Segment
Segment

 

Auðkenning áhættu

Áhætta Landsvirkjunar er auðkennd og kortlögð út frá helstu ferlum fyrirtækisins og í tengslum við framkvæmdir. Auðkenning áhættu er reglulega framkvæmd út frá skipulögðu ferli í samræmi við reglur áhættustýringar.

Mat á áhættu

Mat er lagt á alvarleika áhættu út frá líkum, mögulegum áhrifum og sambandi þar á milli. Metin eru möguleg áhrif áhættu á fjárhag, ímynd, heilsu og öryggi eða umhverfi, allt eftir því sem við á hverju sinni.

Meðhöndlun áhættu

Meðhöndlun áhættu getur falist í að samþykkja, forðast, draga úr, auka eða flytja áhættu. Ráðstafanir eru gerðar vegna áhættu sem metin er óviðunandi eða ef til staðar eru tækifæri til umbóta.

Stjórnun áhættu

Stjórnun áhættu, sem m.a. felur í sér eftirlit og upplýsingagjöf um áhættu, styður við starfsemi í samræmi við  samþykkta stefnu og verklag áhættustýringar og er ætlað að tryggja að áhættutaka í fyrirtækinu sé innan áhættuviðmiða og heimilda.

Section
Segment

Meginreglur um ábyrgð

Svið og deildir eru ábyrg fyrir þeirri áhættu sem fellur innan starfsviðs þeirra. Ákveðinni áhættu er þó stjórnað miðlægt. Þannig ber fjárstýring ábyrgð á stýringu markaðs- og lausafjáráhættu fyrirtækisins. Upplýsingaöryggisstjóri og sviðið upplýsingatækni og stafræn þróun bera ábyrgð á öryggi helstu net- og upplýsingakerfa. Starfsmannasvið stýrir starfsmannaáhættu og lögfræðisvið heldur utan um ytri kröfur og regluvörslu.

Section
Segment

Skipting áhættu

Margs konar áhætta er samofin rekstri og virðiskeðju Landsvirkjunar. Áhættu fyrirtækisins er skipt upp í viðskiptaáhættu, fjárhagslega áhættu og rekstraráhættu.


Viðskiptaáhætta

Landsvirkjun starfar í viðskiptaumhverfi sem er síbreytilegt. Það þýðir að ytri þættir, sem ekki eru undir stjórn Landsvirkjunar, geta skapað ýmiss konar áhættu fyrir fyrirtækið. Landsvirkjun fylgist því náið með breytingum í viðskiptaumhverfi og metur möguleg áhrif þeirra á fyrirtækið, viðskiptavini þess og íslenskan orkumarkað eftir því sem við á.

Stýring viðskiptaáhættu felur í sér gagnaöflun og greiningu í víðu og þröngu samhengi, gerð sveigjanlegra viðskiptaáætlana og ákvarðanatöku að teknu tilliti til áhættu og tækifæra.

Fjárhagsleg áhætta

Fjárhagsleg áhætta Landsvirkjunar verður til bæði í viðskiptum og í annarri starfsemi fyrirtækisins. Fjárhagsleg áhætta skiptist í markaðsáhættu, lausafjáráhættu og mótaðilaáhættu.

Markaðsáhætta

Markaðsáhætta Landsvirkjunar er helst tilkomin vegna verðtenginga í raforkusamningum, gjaldmiðlaáhættu og vaxtaáhættu vegna lána félagsins. Í samræmi við samþykkt áhættuviðmið notar Landsvirkjun afleiðusamninga til að verja félagið fyrir markaðsáhættu.

Lausafjáráhætta

Lausafjáráhættu Landsvirkjunar er stýrt með langtímaáætlun um sjóðstreymi, álagsprófum og góðu aðgengi að lánsfé. Slík stýring gerir Landsvirkjun kleift að standa við skuldbindingar sínar tímanlega og með hagkvæmum hætti.

Mótaðilaáhætta

Mótaðilaáhætta Landsvirkjunar verður fyrst og fremst til í tengslum við raforkusamninga, afleiðusamninga og vörslu handbærs fjár. Við gerð raforkusamninga er sett krafa um tryggð lágmarkskaup á orku og um ábyrgðir frá viðskiptavinum. Við gerð afleiðusamninga og í tengslum við vörslu handbærs fjár er gerð krafa um að mótaðilar hafi lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki. 

Rekstraráhætta

Rekstraráhætta Landsvirkjunar verður til í tengslum við daglegan rekstur og framkvæmdir fyrirtækisins. Rekstraráhætta telst sem hætta á tjóni eða skaða sem getur orðið vegna bilunar eða skemmda á eignum og búnaði, ófullnægjandi innri ferla, kerfisbilunar, mannlegra mistaka eða ytri atburða.

Rekstraráhætta fyrirtækisins getur m.a. orsakað:

  • Slys á starfsfólki, verktökum eða þriðja aðila
  • Skaða á umhverfi
  • Framleiðslu- eða eignatjón hjá viðskiptavinum
  • Fjárhagslegt tjón
  • Ímyndartjón
  • Upplýsingaleka eða upplýsingatap

Landsvirkjun vinnur markvisst að lágmörkun áhættu í rekstri. Má þar telja til gerð viðbragðsáætlana, hönnun tæknilausna, sjálfvirknivæðingu ferla, bætta skráningu á verklagi, fræðslu og þjálfun. Fyrirtækið starfar í samræmi við alþjóðleg viðmið og kröfur og leggur áherslu á forvarnir og virkt eftirlit til að koma í veg fyrir möguleg tjón eða skaða.

Section
Segment

Fylgiskjöl

Hér má sækja ársreikning 2019 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í PDF-skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel-skjali