Efnahagsreikningur
Heildareignir Landsvirkjunar voru 4.382 m.USD í árslok 2019 og handbært fé nam 110 m.USD. Miklu fjárfestingatímabili er nú lokið sem endurspeglast í lækkun rekstrarfjármuna milli ára.
Vaxtaberandi skuldir námu 1.802 m.USD í árslok 2019 og hafa lækkað um 199 m.USD frá árslokum 2018. Á sama tíma jókst eigið fé um 72m.USD og stendur eiginfjárhlutfall nú í 51% en var 48,6% í lok árs 2018.
Landsvirkjun heldur áfram að leggja áherslu á markvissa niðurgreiðslu skulda og hafa nettó skuldir lækkað um 193 m.USD frá áramótum (nettó skuldir eru vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé fyrirtækisins). Bætt skuldastaða er ein af lykilforsendum fyrir hærri arðgreiðslum til eigandans, íslensku þjóðarinnar.
Kennitölur
Skuldsetning samstæðunnar, mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (nettó skuldir/EBITDA), lækkaði úr 4,8x í árslok 2018 í 4,5x í árslok 2019.
Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti nettó skuldum fór úr 16,8% í árslok 2018 í 18,5% í árslok 2019. Vaxtaþekjan (EBITDA/nettó vaxtagjöld) hækkaði í 5,5x en var 4,8x í árslok 2018. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti vaxtagjöldum hækkaði úr 3,7x í lok árs 2018 í 4,4x í árslok 2019.
Arðsemi eiginfjár reiknast út frá hagnaði, en gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða og annarra afleiða, ásamt gjaldeyrismuni, getur haft umtalsverð áhrif á niðurstöðuna. Arðsemi eiginfjár var jákvæð um 5,9% fyrir árið 2018 og jákvæð um 5,2% árið 2019.
Fylgiskjöl
Hér má sækja ársreikning 2019 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í PDF-skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel-skjali