Endurnýjanleg orka er unnin frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þótt af henni sé tekið. Með því að nýta orkulindina með sjálfbærum hætti má viðhalda náttúrulegu jafnvægi hennar.
Orkulind í stöðugri endurnýjun
Sjálfbær orkuvinnsla lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki lýsir eðli hennar.
Endurnýjanlega auðlind er þannig hægt að nýta á sjálfbæran eða ósjálfbæran hátt.
Orka sem unnin er úr vatni, vindi og jarðvarma er skilgreind sem endurnýjanleg þar sem orkulindirnar endurnýja sig stöðugt þótt af þeim sé tekið. Orkulindir jarðefna, t.d. olía, kol og gas, teljast ekki endurnýjanlegar, þar sem þær eru aðeins til í takmörkuðu magni.
Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.
Sjálfbær þróun
Með sjálfbærri þróun er vísað til langtíma þróunar sem snýst um að viðhalda gæðum náttúrunnar, styrkja samfélagið og auka efnahagsleg verðmæti.
Landsvirkjun stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda með skilgreindu verklagi og skýrri stefnu um samfélagslega ábyrgð. Þá hefur fyrirtækið jafnframt tileinkað sér innra verklag byggt á alþjóðlegum matslykli HSAP (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol) um sjálfbæra vatnsorkuvinnslu.
Vatnsárið 2018/2019 var í meðallagi gott
Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert. Um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga. Í heildina taldist vatnsárið 2018/2019 í meðallagi. Allar stærstu miðlanir fylltust fyrir lok vatnsáramóta og rann víða á yfirföllum.
Heildarfylling miðlana var 100% í lok vatnsárs.
Vatnsárið hófst með köldum októbermánuði og litlu innrennsli í miðlanir. Við tóku hlýir og úrkomusamir haust- og vetrarmánuðir með allnokkrum vetrarblotum og var rennsli vel yfir meðallagi miðað við árstíma. Í apríl voru snöggar og miklar vorleysingar, mestallan snjó tók upp og viðsnúningur varð á niðurdrætti miðlana. Snjólitlir maí og júní voru rennslislega rýrir en jökulleysing fór fyrst af stað í sérlega hlýjum júlí mánuði. Ágúst reyndist síðan óvenju kaldur og datt jökulleysing verulega niður og tók ekki við sér aftur fyrr en með auknum hlýindum í síðari hluta september.
Vöktun vatnshæðar og fleiri umhverfisþátta á vef Landsvirkjunar
Myndin sýnir vatnsstöðu á miðlunarsvæðum Landsvirkjunar eftir mánuðum. Hægt er að smella á mánuðina hér að ofan og fá upplýsingar um stöðuna í vatnsbúskapnum.
Jarðhitaforðinn 2019
Markmið Landsvirkjunar er að nýta jarðhitaauðlindina á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Við starfrækjum þrjár jarðvarmastöðvar, allar á Norðausturlandi; Þeistareykjastöð, Kröflustöð og Gufustöðina í Bjarnarflagi. Á þessum svæðum stundum við umfangsmiklar rannsóknir á jarðhita í tengslum við sjálfbæra nýtingu og náttúrulegt viðhald.
Við nýtingu jarðhitaauðlindarinnar er jarðhitavökvi sem samanstendur af gufu, vatni og gasi tekinn upp úr jarðhitageymi á um 2.000 metra dýpi. Orkan er unnin úr gufunni, stórum hluta vatnsins er dælt aftur niður í jarðhitageyminn og litlum hluta þess er veitt í yfirborðsvatn. Gas, og hluti gufunnar, gufar upp frá kæliturni og út í andrúmsloftið.
Á árinu 2019 voru 16.600 þúsund tonn af jarðhitavökva unnin úr jarðhitakerfum í umsjón Landsvirkjunar á Norðausturlandi. Rúmur helmingur þessa vökva, eða um 8.330 þúsund tonn, var losaður aftur niður í jarðhitakerfin.
Vinnsla og losun
Bætt nýting auðlinda
Landsvirkjun leitar sífellt nýrra leiða til að styðja við sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Þar voru tvö verkefni í forgrunni árið 2019; ný nálgun við breytilega vinnslu innan vinnslukerfisins og þróunarverkefni á rauntímamælingum.
Breytileg vinnsla jarðvarmavirkjana
Landsvirkjun starfar eftir stefnu um breytilega vinnslu jarðvarmavirkjana.
Það þýðir að horft er til heildarinnstreymis vatnsorku og jarðvarma í kerfið þegar ákvarðað er í hvaða aflstöðvum skuli framleitt rafmagn. Þá er t.d. hægt að spara jarðhitaforða þegar staða er góð í miðlunarlónum fyrir vatnsfall sem hægt er að nýta í tilsvarandi virkjunum.

Athuganir á breytilegri vinnslu jarðvarmavirkjana hafa gengið vel og var Kröfluvirkjun t.a.m. rekin nokkuð neðan við hámarksafköst stóran hluta áranna 2018 og 2019.
Slík stýring stuðlar að betri nýtingu auðlindanna með því að draga úr ónýttri vatnsorku sem fer á yfirfall úr miðlunarlónum. Betri nýting eykur sjálfbærni með því að spara jarðhitaforðann auk þess að skapa meiri hagkvæmni í rekstri, þar sem þörf fyrir viðhaldsboranir á jarðhitasvæðunum minnkar.
Verkefnið hefur gengið vel og var Kröfluvirkjun t.a.m. rekin nokkuð neðan við hámarksafköst stóran hluta áranna 2018 og 2019.
Nýting gervigreindar við samþættingu vinnslu
Orkusvið og þróunarsvið Landsvirkjunar vinna nú að tilraunaverkefni á rauntímamælingu og stýringum á afli frá borholum.
Verkefnið snýr að því að setja fjarstýrða loka á valdar borholur í þeim tilgangi að samþætta vinnslu úr holunum og fá um leið sem skilvirkasta nýtingu á jarðhitakerfinu. Meðal þess sem verið er að skoða er nýting gervigreindar til verksins.
Þetta er nokkuð krefjandi verkefni, þar sem Landsvirkjun hefur ekki notast við stýranlega loka áður. Stærsta áskorunin liggur þó í að staðlaðar leiðir til þess að mæla borholuafköst í rauntíma eru ekki til.
Endurnýjanlegir orkugjafar
Við vinnum orku úr auðlindum sem endurnýja sig stöðugt þótt af þeim sé tekið. Með sjálfbærri nýtingu orkulindanna er náttúrulegu jafnvægi þeirra haldið við.