Section
Segment

Hjá Landsvirkjun höfum við það markmið að fyrirtækið standi sig vel á öllum þremur sviðum sjálfbærrar þróunar; því efnahagslega, því samfélagslega og því umhverfislega. Á öllum sviðunum var árið 2019 gott hjá fyrirtækinu.

Efnahagslega var árið vel ásættanlegt, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður hjá mikilvægum viðskiptavinum. Nettó skuldir héldu áfram að lækka, lánshæfiseinkunnir hækkuðu og hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem fyrirtækið lítur helst til við mat á rekstrinum, var ásættanlegur. Rekstur aflstöðva var farsæll á árinu, eins og árin áður, og fékk fyrirtækið meðal annars virtustu verkefnastjórnunarverðlaun heims fyrir byggingu Þeistareykjavirkjunar.

Í samfélagslegum málefnum stóð Landsvirkjun sig vel. Fyrirtækið fékk Hvatningarverðlaun jafnréttismála fyrir það starf sem unnið hefur verið undanfarin misseri og miðar að því að bæta menningu vinnustaðarins og tryggja að öllu starfsfólki líði vel.

Í málefnum umhverfisins náði Landsvirkjun sömuleiðis góðum árangri. Sett var fram aðgerðaáætlun sem felur í sér að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust árið 2025 og hluti af henni er að tekið var upp innra kolefnisverð, sem beinir fjárfestingum og ákvörðunum í rekstri að loftslagsvænum lausnum.

Þessi áhersla Landsvirkjunar á aukna sjálfbærni er í samræmi við strauma á alþjóðavettvangi, til að mynda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem fyrirtækið tók upp í starfsemina fyrir nokkrum misserum.

Allt miðar þetta að því að ganga ekki á náttúruauðlindir á kostnað komandi kynslóða, þannig að starfsemin beri sig, hvort sem mælt er á efnahagslegan, samfélagslegan eða umhverfislegan mælikvarða. Vonandi berum við gæfu til að halda áfram á sömu braut.

Section
Segment

Rekstur Landsvirkjunar litaðist af erfiðum ytri aðstæðum á árinu 2019, en þrátt fyrir þær náðist ásættanlegur árangur í rekstri ársins. Áfram gekk vel að lækka nettó skuldir, sem eru nú komnar niður í 1.691 milljón bandaríkjadala og lækkuðu um 193 milljónir á árinu.

En það er ekki einungis fjármálalegur rekstur Landsvirkjunar sem gengur vel. Daglegur rekstur aflstöðva okkar er og hefur verið í föstum skorðum í áratugi. Því er að þakka okkar reynslumikla starfsfólki og umfangsmikilli þekkingu þeirra á sviði nýtingar endurnýjanlegra auðlinda. Með hverri nýrri kynslóð sem svo tekur hér til starfa fleygir þessari þekkingu fram og svigrúm til framfara eykst. Það þýðir að við getum markvisst leitað nýrra leiða til að gera starfsemina sjálfbærari á sviði umhverfis-, efnahags- og samfélagsmála.

Vinnsla rafmagns úr endurnýjanlegum orkugjöfum hefur hverfandi kolefnislosun í för með sér. Til að mynda er kolefnisspor raforkuvinnslu Landsvirkjunar rúm 22 þúsund tonn CO2-ígilda. Til samanburðar kynni sambærileg vinnsla í raforkukerfi utan Íslands losa í kringum 6,5 milljónir tonna CO2-ígilda, en sú losun jafngildir allri kolefnislosun Íslands á einu ári og gott betur.

Þessi mikli munur er til marks um mikilvægi endurnýjanlegrar orkuvinnslu og þau jákvæðu áhrif sem slík vinnsla hefur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Landsvirkjun er þátttakandi í UN Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna, sem lýtur að hnattrænum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð, og er gerð grein fyrir framvindu í þeim málaflokkum í ársskýrslunni. Í ár er í fyrsta sinn gert grein fyrir sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins út frá Global Reporting Initiative (GRI) staðlinum.