Segment

Íslendingar vinna nærri 100% allrar raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku, úr vatni, jarðvarma og vindi.

Landsvirkjun starfrækir 15 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.

Section
Segment

Vatnsafl: 12.867 GWst

Raforkuvinnsla í vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar árið 2019 var um 12.867 GWst, miðað við 13.199 GWst árið 2018.

Landsvirkjun starfrækir fimmtán vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið á fjórum starfssvæðum.

Á Þjórsársvæði eru sjö aflstöðvar með samtals 19 aflvélar og fjölda veituvirkja sem spanna svæðið frá Hofsjökli niður að Búrfellsstöð. 

Á Sogssvæði eru þrjár aflstöðvar með samtals átta aflvélar og veituvirki við Þingvallavatn og Úlfljótsvatn.

Segment

Raforkuafhending Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 13.817 GWst árið 2019, sem er 2,7% minnkun frá árinu áður.

Segment

Laxárstöðvar heyra undir Blöndusvæði og eru aflstöðvar á því starfssvæði þrjár með samtals fimm aflvélar og tilheyrandi veituvirki. Við Blöndustöð spanna veituvirki 25 kílómetra langt svæði frá Reftjarnarbungu niður að Gilsá.

Fjórða starfssvæðið er Fljótsdalsstöð, stærsta vatnsaflsstöð landsins, með sex aflvélar og umfangsmikil veituvirki, meðal annars jarðgöng sem eru samanlagt um 70 km löng. Í Fljótsdalsstöð voru unnar 4.836 GWst á árinu, eða tæp 35% af heildarorkuvinnslu Landsvirkjunar.

Ítarlegri upplýsingar um vatnsbúskapinn má finna í kaflanum Auðlindir

Section
Segment

Jarðvarmi: 1.084 GWst

Raforkuvinnsla í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar árið 2019 var um 1.084 GWst, miðað við 1.132 GWst árið 2018.

Landsvirkjun nýtir jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Við vinnslu er þess gætt að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Þeim hluta vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Jarðgufustöðvar Landsvirkjunar eru þrjár; á Þeistareykjum, í Kröflu og í Bjarnarflagi, með samtals fimm aflvélum.

Segment

Hlutur vatnsafls í vinnslu Landsvirkjunar 2019 var um 92% og hlutur jarðvarma um 8%.

Section
Segment

Vindafl: 6,6 GWst

Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á svæði sem kallast Hafið og er norðan við Búrfell. Hvor vindmylla um sig hefur 0,9MW uppsett afl.

Section
Segment
Segment
Segment

Tímamót í rekstri

Á árinu fögnuðu fjórar aflstöðvar okkar tímamótum í rekstri. Með gangsetningu stöðvanna var stutt við samfélagslega þróun, því aukið framboð á rafmagni var nýtt til að skapa bætt lífsgæði og fjölbreyttari atvinnutækifæri.

Segment

80 ára

Laxárstöð I

Afl 5 MW, gangsetning 1939

Stöðin er elst þriggja rennslisvirkjana í Laxá. Fyrstu árin fór allt rafmagn frá stöðinni inn á bæjarveitu Akureyrar. Fyrir var þar lítil virkjun í Glerá sem auk dísilvéla sá bænum fyrir raforku.

60 ára

Steingrímsstöð

Afl 27 MW, gangsetning 1959

Gangsetning stöðvarinnar átti stóran þátt í auknu framboði á raforku á Suðvesturlandi. Stöðin er sú þriðja sem var gangsett á Sogssvæðinu og virkjar hún fall Efra-Sogs úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn.

Segment

50 ára

Gufustöðin í Bjarnarflagi

Afl 5 MW, gangsetning 1969

Gufustöðin á sér eina elstu nýtingarsögu háhitasvæðis á Íslandi. Á löngum ferli hefur stöðin veitt jarðgufu til iðnaðarnota, séð hitaveitu svæðisins fyrir varmaorku og jarðböðunum við Mývatn fyrir jarðhitavatni.

20 ára

Sultartangastöð

Afl 125 MW, gangsetning 1999

Stöðin er hluti af umfangsmiklu virkjanakerfi á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Hún nýtir rennsli Þjórsár og Tungnaár. Tungnaá hefur áður knúið vélar Hrauneyjafoss-, Sigöldu- og Búðarhálsstöðva á leið sinni ofan af hálendinu.

Section
Segment

Rekstur aflstöðva

Eftirlit, viðhald og gæsla aflstöðva var í föstum skorðum á árinu.

Rekstur stöðva gekk vel á árinu 2019. Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 89, en voru 95 árið árið 2018. Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að frátöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,6% tímans, en hlutfallið var 99,7% árið 2018.

Upplýsingar um gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi Landsvirkjunar

Segment

Aukið álag í óveðri

Engar bilanir urðu hjá Landsvirkjun í óveðrinu sem gekk yfir landið í lok ársins. Þó urðu nokkrar ístruflanir við Laxárstöðvar. Góð upplýsingagjöf frá Veðurstofunni, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðinni í aðdraganda atburðarins gerði okkur kleift að virkja allar nauðsynlegar viðbragðsáætlanir í tæka tíð, undirbúa starfsfólk og tryggja öryggi þess og viðveru í aflstöðvum.

Section
Segment

Endurbótaverkefni í aflstöðvum

Unnið var að 73 fjárfestingar- og endurbótaverkefnum í aflstöðvum á árinu 2019.

Segment

Endurnýjuð Gufustöð í Bjarnarflagi

Endurnýjuð Gufustöð í Bjarnarflagi var tekin í fulla notkun árið 2019. Endurbótaverkefnið hófst í mars 2018 og sneri að uppsetningu á nýrri vélasamstæðu, endurnýjun á rafbúnaði og endurbótum á stöðvarhúsi. Ný aflvél í Gufustöðinni nýtir sama gufumagn og sú eldri gerði. Ný vél skilar hins vegar meira afli, eða 5 WV í stað 3 MV, og nýtir því auðlindina með hagkvæmari hætti. Með tilkomu endurnýjaðrar Gufustöðvar eykst afhendingaröryggi raforku í Mývatnssveit.

Þá var settur upp nýr varmaskiptir fyrir rekstur hitaveitu Skútustaðahrepps, sem eykur afhendingaröryggi veitunnar mikið. Einnig var settur upp nýr vélarspennir og tenging stöðvarinnar við dreifikerfi RARIK endurnýjuð.

Lesa má nánar um verkefnið á vefsíðu Landsvirkjunar

Segment

Ný brú yfir Sultartangaskurð

Stórum áfanga við viðhald á frárennslisskurði Sultartangastöðvar lauk á árinu, þegar ný brú var byggð yfir skurðinn. Síðustu ár hefur verið unnið að því að fyrirbyggja frekara rof úr veiku sandsteinslagi ofarlega í skurðinum.

Frárennslisskurður Sultartangastöðvar er allt að 40 metra djúpur og sjö kílómetra langur. Viðhaldsvinnu við skurðinn lauk að mestu árið 2019.

Þar sem gera þurfti lagfæringar undir og beggja vegna gömlu brúarinnar var ráðgert að stöðva Sultartangastöð og vinna verkið af skurðbotni, með skurðinn tóman. Slík rekstrarstöðvun er kostnaðarsöm og sýndu útreikningar að hagkvæmari kostur væri að byggja nýja brú og vinna verkið ofan frá, með stöðina í fullum rekstri.

Lesa má nánar um verkefnið á vefsíðu Landsvirkjunar

Segment

Viðhald Búrfellsstöðvar

Viðhald hélt áfram á vélum Búrfellsstöðvar á árinu, en þar hefur reynst erfitt að finna svigrúm fyrir viðhaldsverkefni vegna mikils álags í kerfinu. Með tilkomu Búrfellsstöðvar II árið 2018 minnkaði álag á eldri stöðina og myndaðist þá kærkomið tækifæri til að fara í viðhald á vélum.

Árið 2019 voru vélasamstæður 5 og 3 teknar í upptekt og þar með var lokið við klössun á fjórum vélasamstæðum af sex.

Segment

Bætt starfsumhverfi

Á árinu var unnið að uppsetningu á hreinsibúnaði fyrir vélasamstæður. Um er að ræða ryksugur fyrir hemlaryk úr hemlum rafala, kolaryk frá sleitihringjum og olíueimsugur fyrir legur rafala og hverfla. Markmiðið er að bæta starfsumhverfið með því að auka loftgæði, minnka óhreinindi og þar með spara tíma sem fer í þrif á rafölum við ársskoðanir.

Section
Segment

Raforkuþörf framtíðar

Landsvirkjun hefur til skoðunar ýmsa virkjunarkosti sem mætt gætu orkuþörf samfélagsins í framtíðinni. Við mat á þessum virkjunarkostum hefur fyrirtækið sjálfbæra þróun að leiðarljósi og leitast við að hafa jafnvægi á milli þriggja meginstoða hennar: efnahags, umhverfis og samfélags.

Tækifæri eru til aukinnar nýtingar og orkuvinnslu á Íslandi, ólíkt því sem þekkist víðast hvar í Evrópu þar sem búið er að nýta flesta orkukosti.

Margra ára rannsóknavinna liggur að baki hverjum virkjunarkosti og á þeim grundvelli er verkefnið skilgreint með hagkvæmni, sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi. Hér á landi er vönduð umgjörð um frekari nýtingu og verndun landsvæða, sem byggir á þremur meginþáttum: rammaáætlun, mati á umhverfisáhrifum og skipulagslöggjöf. Allt eru þetta tæki til að meta hvort áhrif á umhverfi séu of mikil til að ávinningur virkjunar sé ásættanlegur, en virkjanaframkvæmdir hafa óhjákvæmilega áhrif á umhverfi og samfélag, hvort sem virkjunarsvæðið er á hálendinu eða á byggðum svæðum. 

Af mögulegum framtíðarkostum hefur Landsvirkjun skilgreint fimm verkefni í forgang og eru þeir kostir líklegir sem næstu virkjunarframkvæmdir fyrirtækisins.

Forgangsverkefni fyrirtækisins eru:

 • Hvammsvirkjun
 • Virkjanir í Blönduveitu
 • Endurhannaður Búrfellslundur
 • Krafla/Þeistareykir – aflaukning
 • Stækkun Þeistareykjavirkjunar

Lesa má nánar um virkjunarkosti á heimasíðu Landsvirkjunar

Section
Segment

Vinna við forgangskosti á árinu 2019

 • Hvammsvirkjun: Á árinu var unnið að hönnunarforsendum og útboðshönnun virkjunarinnar, með áherslu á stíflur og fiskvegi. Sú hlið stíflunnar sem snýr að vatni verður steypt og sú hlið sem snýr frá vatni verður með grenndargróðri til að hún falli betur að umhverfi sínu. Einnig var haldið áfram vinnu við að uppfylla skilyrði sem sett voru í mati á umhverfisáhrifum.

  Virkjanir í Blönduveitu: Á árinu var lögð áhersla á að leita leiða til að lækka stofnkostnað. Einnig var lokið við umhverfisáætlun fyrir verkefnið.

 • Endurhannaður Búrfellslundur: Unnið hefur verið að nýrri útfærslu, þar sem komið er til móts við helstu athugasemdir og ábendingar sem bárust í umhverfismati og þriðja áfanga rammaáætlunar. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr áhrifum á landslag og ásýnd.

 • Aflaukning Kröfluvirkjunar og Þeistareykjavirkjunar: Til skoðunar hefur verið að hámarka afrakstur jarðhitanýtingar á Þeistareykjum og í Kröflu, annars vegar með því að virkja orku sem felst í skiljuvatni með svokölluðum tvívökvavélum og hins vegar með því að virkja þrýstifall frá holutoppi holna sem reknar eru háum holutoppsþrýstingi og niður á gufuveituþrýsting.

 • Stækkun Þeistareykjavirkjunar: Stækkun Þeistareykjavirkjunar um eina vél (45 MW) er álitlegur kostur. Forsenda stækkunar er að sýna fram á að jarðhitaauðlindin standi undir núverandi vinnslu og stækkun. Áður en tekin er ákvörðum um stækkun þarf að reka núverandi virkjum í a.m.k. þrjú ár, eða a.m.k. til ársloka 2020.