Landsvirkjun býður viðskiptavinum sínum hágæðaþjónustu og samkeppnishæfar vörur
Orkusala til viðskiptavina á stórnotendamarkaði nemur tæplega 85% af heildarorkusölu fyrirtækisins og var um 14,1 teravattstund á árinu.
Skipting raforkusölu, selt magn
Rekstrarumhverfi viðskiptavina
Viðskiptavinir Landsvirkjunar sem teljast til stórnotenda eru nú tíu talsins og hafa aldrei verið fleiri.
Líkt og verið hefur var stærsti hluti raforkusölunnar á árinu 2019 til viðskiptavina í áliðnaði. Rekstur hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar gekk almennt vel en aðstæður á mörkuðum og tæknilegir erfiðleikar höfðu þó nokkur áhrif.
Rekstur Rio Tinto gekk vel fyrri hluta árs. Í júlí síðastliðnum myndaðist ljósbogi í einum af þremur kerskálum álversins. Slökkva þurfti á kerskálanum, sem þýddi að þriðjungur framleiðslunnar lá tímabundið niðri. Þetta leiddi til minni orkukaupa af hálfu Rio Tinto þar sem raforkunotkun álversins minnkaði. Endurræsing kerjanna gekk vel en álverið hefur ekki enn náð fullum afköstum.
PCC BakkiSilicon, sem er nýr viðskiptavinur frá árinu 2018, starfrækir kísilmálverksmiðju á Húsavík og var þetta fyrsta heila rekstrarár fyrirtækisins.
Niðurstaða gerðardóms um rafmagnsverð í samningi Elkem
Upphaflegur rafmagnssamningur milli Elkem á Íslandi og Landsvirkjunar er frá árinu 1975 og gilti til ársins 2019. Í samningnum var Elkem heimilt að framlengja gildistímann um 10 ár, eða til ársins 2029, sem fyrirtækið gerði og vísaði jafnframt ákvörðun um rafmagnsverðið til gerðardóms.
Gerðardómur tók ákvörðun um nýtt rafmagnsverð með hliðsjón af sambærilegum rafmagnssamningum við stórnotendur í málmframleiðslu á Íslandi. Niðurstaða gerðardóms var birt í apríl 2019. Í júlí staðfesti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að orkuviðskipti Elkem og Landsvirkjunar hefðu ekki skekkt samkeppni á markaðnum eða veitt einu fyrirtæki forskot fram yfir önnur í sama rekstri.
Elkem er fjórði stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og er samningsbundið rafmagn 127 MW og 1.035 GWst. Verksmiðja Elkem hefur verið í rekstri frá árinu 1979.
Stórnotendur

Advania Data Centers
Advania Data Centers hóf starfsemi árið 2014 og er stærsta gagnaverið á Íslandi. Fyrirtækið býður uppá fjölbreytta gagnaversþjónustu, m.a. aðgang að ofurtölvu-reikniafli í skýinu. Starfsemi fyrirtækisins fer fram á Steinhellu í Hafnarfirði og Fitjum í Reykjanesbæ. Landsvirkjun veitir gagnaverum Advania Data Centers hluta af því rafmagni sem það nýtir.
Alcoa Fjarðaál
Álverið á Reyðarfirði er stærsta álver Íslands og framleiðir 346.000 tonn af áli. Álverið er nýjasta álverið af þremur hér á landi, en full starfsemi þess hófst árið 2008. Landsvirkjun veitir álverinu allt það rafmagn sem það nýtir.
Elkem
Kísiljárnsmiðjan á Grundartanga hóf rekstur árið 1979 og framleiddi 60.000 tonn af járnblendi árlega á fyrstu árum sínum. Framleiðslugeta kísiljárnsmiðjunnar hefur nokkrum sinnum verið aukin frá þeim tíma en nú eru þar framleidd 120.000 tonn af járnblendi og er stór hluti þess sérvara. Landsvirkjun sér fyrir allri raforku sem nýtt er til framleiðslunnar.

Etix Everywhere Iceland
Etix Everywhere Iceland hóf rekstur gagnavers á Blönduósi á árinu 2019, en auk þess rekur fyrirtækið gagnaver í Reykjanesbæ. Umsvifin hafa aukist hratt undanfarin misseri og er Landsvirkjun meginbirgir versins á Blönduósi.

Norðurál
Álverið á Grundartanga hóf starfsemi sína árið 1998 með 30.000 tonna álframleiðslu á ári, sem var fljótlega aukin í 60.000 tonn. Núverandi framleiðslugeta álversins er um 300.000 tonn. Landsvirkjun sér álverinu nú fyrir þriðjungi af því rafmagni sem nýtt er til framleiðslunnar.

PCC BakkiSilicon
PCC BakkiSilicon hóf rekstur á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík á árinu 2018. Verksmiðjan er nú komin í fullan rekstur og framleiðir um 33.000 tonn af kísilmálmi. Landsvirkjun afhendir kísilmálmverksmiðjunni allt það rafmagn sem hún nýtir.

Rio Tinto Alcan
Álverið í Straumsvík í Hafnarfirði hóf starfsemi árið 1969 og framleiddi þá einungis 33.000 tonn af áli. Frá þeim tíma hefur framleiðslugeta álversins verið aukin nokkrum sinnum. Árið 2010 var rafmagnssamningur við álverið endurnýjaður og síðan hefur álverið aukið framleiðslu sína í um 211.000 tonn árlega. Landsvirkjun tryggir álverinu allt það rafmagn sem það nýtir.

TDK Foil Iceland
Becromal breytti nafni sínu í TDK Foil Iceland á árinu 2018. Fyrirtækið hóf starfsemi á Akureyri árið 2008 og framleiðir aflþynnur fyrir þétta í rafeindabúnað. Landsvirkjun tryggir verksmiðjunni alla þá raforku sem þarf í framleiðsluna.

Verne Global
Gagnaver Verne Global er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og hóf starfsemi árið 2010. Viðskiptavinir Verne Global eru stór alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir á sviði loftslagsrannsókna, fjármálaútreikninga, árekstraprófana og erfða- og líftækni. Landsvirkjun tryggir gagnaverinu, sem er í Reykjanesbæ, allt það rafmagn sem það nýtir.

Reykjavík DC
Reykjavík DC er nýtt hátæknigagnaver í eigu Opinna kerfa, Sýnar, Reiknistofu bankanna og Korputorgs. Gagnaverið mun hefja rekstur snemma árs 2020 og verður við Korputorg í Reykjavík.
Ný kynslóð viðskiptavina
Landsvirkjun vinnur stöðugt að því að breikka hóp viðskiptavina fyrirtækisins.
Þar leggjum við áherslu á að þróa verkefni í fjölbreyttum iðngreinum sem falla að stefnu okkar um sjálfbæran rekstur og nýtingu. Má þar nefna t.d. fyrirtæki sem nýta sér orku- og efnisstrauma sem losna við vinnslu raforku úr jarðhitaauðlindum og fyrirtæki sem skapa orkutengda atvinnu m.a. í kringum ferðamál og þjónustu sem tengist heilsu og vellíðan.
The Power of Partnership
Við markaðssetningu á Landsvirkjun sem samstarfsaðila er leitast við að kynna fyrir mögulegum viðskiptavinum hvernig nýta megi fjölbreytta orku- og efnisstrauma og endurnýjanlega orku til verðmætasköpunar.
Landsvirkjun á stöðugt í formlegum og óformlegum viðræðum við fjölda fyrirtækja. Slíkar viðræður geta tekið mörg ár áður en niðurstöður fást, en færa okkur á sama tíma mikilvæga innsýn í viðskiptaumhverfi nýrra markhópa. Samhliða því höfum við tamið okkur aukinn viðbragðshraða og meiri sveigjanleika í þjónustu.
Heildsölumarkaður raforku er vettvangur viðskipta með raforku á milli raforkusala. Viðskiptavinir Landsvirkjunar í heildsölu selja raforkuna áfram til heimila og almennra fyrirtækja.
Viðskiptavinir Landsvirkjunar á heildsölumarkaði eru átta talsins: Fallorka, HS Orka, Íslensk orkumiðlun, Orka heimilanna, Orka náttúrunnar, Orkusalan, Orkubú Vestfjarða og Rafveita Reyðarfjarðar. Viðskiptavinir Landsvirkjunar í heildsölu selja raforkuna áfram í smásölu til heimila og almennra fyrirtækja.
Um 14% af rafmagnssölu fyrirtækisins, eða 2 TWst, fara fram á heildsölumarkaði.
Landsvirkjun innleiddi nýtt fyrirkomulag heildsölusamninga í byrjun árs 2017. Í kjölfarið hefur aflskuldbinding fyrirtækisins minnkað umtalsvert og skammtímakaup á rafmagni aukist. Bætt nýting raforkukerfisins með þessum hætti hefur í för með sér betri nýtingu á auðlindum. Með styttri og sveigjanlegri samningum hefur innkoma nýrra aðila á markaðinn verið auðvelduð og samkeppni aukist. Landsvirkjun vinnur að því að þróa þjónustuna við viðskiptavini í heildsölu og hefur um nokkurt skeið boðið uppá rafræn viðskipti með raforku í gegnum viðskiptavef. Á árinu 2019 var rafrænn þáttur viðskiptanna aukinn enn frekar.
Til marks um aukna samkeppni á smásölumarkaði hefur söluaðilaskiptum heimila og fyrirtækja fjölgað. Þannig hefur þrefaldast fjöldi heimila sem skipta um raforkusala á milli áranna 2018 og 2019.
Græn skírteini eru tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki
Markaður með græn skírteini snýst um að hvetja til umhverfisvænni raforkuvinnslu. Þannig geta raforkunotendur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og keypt græn skírteini af fyrirtækjum sem vinna raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
Landsvirkjun er þátttakandi á markaði með græn skírteini. Undanfarin ár hafa skírteinin fylgt með allri raforku sem fyrirtækið selur á heildsölumarkaði á Íslandi. Þetta fyrirkomulag gerir sölufyrirtækjum kleift að afhenda heimilum og fyrirtækjum upprunavottaða raforku.
Umhverfisvitund neytenda er sífellt að aukast og geta græn skírteini gefið fyrirtækjum samkeppnisforskot í sölu og markaðssetningu á vörum sínum. Græn skírteini veita t.d. íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegum markaði með grænar vörur og þjónustu og eru hluti af grænu bókhaldi fyrirtækjanna sem gerir þeim kleift að fá alþjóðlegar umhverfisvottanir.
Sala á grænum skírteinum skilar íslenskum orkufyrirtækjum auknum tekjum og tryggir þeim hlut í verðmætum sem græn orka skapar endanotandanum. Sala á skírteinunum skilaði Landsvirkjun til að mynda tæplega 900 milljónum króna á árinu 2019. Þessa fjármuni nýtum við m.a. til að fjármagna framkvæmdir nýrra virkjana fyrir endurnýjanlega orku, endurbætur á virkjunum í rekstri og til fjölbreyttra aðgerða í loftslagsmálum.