Nýjar áherslur í málaflokki um samfélagslega ábyrgð munu stuðla að aukinni sjálfbærni á öllum sviðum starfsemi okkar. Markmiðið er ávallt að geta metið árangur okkar og áskoranir á sviði sjálfbærni með skilvirkum og upplýsandi hætti. Í ár stígum við fyrstu skrefin í átt að samræmdri alþjóðlegri upplýsingagjöf GRI um sjálfbærni.
Í sátt við umhverfi og samfélag
Starfsemi Landsvirkjunar getur haft víðtæk áhrif í samfélaginu, sérstaklega í nærsamfélagi við aflstöðvar fyrirtækisins. Mat á áhrifum okkar á samfélag og umhverfi er því mikilvægur þáttur í starfsemi okkar. Í öllum rekstrareiningum og í öllum framkvæmdaverkefnum er gerð hagaðilagreining og samskiptaáætlun með það að markmiði að eiga sem best samskipti um starfsemina.
Áhersla á sjálfbærni
Landsvirkjun hefur verið með stefnu um samfélagsábyrgð frá árinu 2012. Sú stefna er, og hefur verið, í stöðugri endurskoðun eftir því sem þekkingu fleygir fram í málaflokknum og nú er aukin áhersla sett á sjálfbærni. Það þýðir að málaflokkurinn fær víðtækari merkingu og skýrara umfang, þar sem hugtakið um sjálfbærni er betur til þess fallið að halda utan um samþættingu efnahags-, umhverfis-, og samfélagsmála.

Sjálfbærni var eitt af þremur áhersluverkefnum í starfsemi okkar árið 2019, ásamt jafnrétti og ábyrgum rekstri, og meginþema á starfsdegi okkar sem haldinn var í mars.
Global Reporting Initiative (GRI)
Vinnu að innleiðingu GRI (e. Global Reporting Initiative) var haldið áfram á árinu.
GRI er alþjóðlegur staðall fyrir samræmda upplýsingagjöf um efnahags-, umhverfis- og samfélagsmál sem gerir skil helstu efnisflokkum sem almennt teljast viðeigandi fyrir fyrirtæki að taka til greina í stefnumótun og upplýsingagjöf.
Notkun GRI mun styðja við frekari vinnu í átt að aukinni sjálfbærni og veita okkur skilvirka leið við mat á árangri og við upplýsingagjöf.
Viðhorfskannanir meðal hagaðila
Einn þáttur í innleiðingu GRI er svokölluð mikilvægisgreining (e. materiality assessment).
Slík greining felur í sér samráð við helstu hagaðila fyrirtækisins, sem og greiningarvinnu innan fyrirtækisins, til þess að meta hvað ber að leggja mesta áherslu á í upplýsingagjöf og stefnumótun tengdri sjálfbærni.
Meðal helstu hópa hagaðila eru almenningur, nærsamfélög, sveitarfélög, félaga- og hagsmunasamtök, stjórnvöld, viðskiptavinir og starfsfólk. Viðhorfskannanir fyrir mikilvægisgreiningu árið 2019 náðu að þessu sinni til almennings, nærsamfélaga starfssvæða okkar, viðskiptavina og starfsfólks Landsvirkjunar.
Þátttakendur voru beðnir um að meta mikilvægi 23ja efnisflokka sem tengjast sjálfbærni í starfsemi Landsvirkjunar. Við val á efnisflokkum var tekið mið af helstu efnisflokkum GRI í efnahags-, umhverfis- og samfélagsmálum. Til að tryggja upplýsingaöryggi og meðferð persónuupplýsinga var rannsóknafyrirtæki Gallup fengið til að sjá um könnunarina.
Alls fór viðhorfskönnunin til tæplega tvö þúsund einstaklinga og svaraði rúmlega helmingur þeirra. Slík þátttaka er fyrirtækinu dýrmæt og erum við þakklát þeim sem gáfu sér tíma til að svara.
Áframhaldandi greiningarvinna og frekara samráð við breiðari hóp hagaðila mun fara fram á árinu 2020.

Með því að stuðla að opnum samskiptum við hagaðila fáum við betri sýn á þau áhrif sem starfsemi Landsvirkjunar getur haft í samfélaginu.
Áherslur í mótun
Um margt voru niðurstöður svipaðar á milli könnunar meðal starfsfólks og könnunar meðal ytri hagaðila.
Flestir þeirra efnisflokka sem röðuðust ofarlega í mikilvægi eru flokkar sem Landsvirkjun hefur lagt aukna áherslu á síðustu misseri og ár.
Meðal þess sem svarendur röðuðu ofarlega í mikilvægi voru heilsu- og öryggismál starfsfólks ásamt starfsþróun, menntun og þjálfun þess. Ábyrgir stjórnunarhættir, gagnsæi og ráðdeild röðuðust einnig ofarlega. Landsvirkjun undirbýr vinnu sem miðar að þjálfun og vitundarvakningu starfsmanna í vörnum gegn spillingu, sem var einn af þeim þáttum sem svarendur töldu mikilvægan.
Nánar má lesa um stjórnarhætti, starfsreglur og siðferðisviðmið Landsvirkjunar í Viðauka I: Stjórnháttalýsing með ársreikningi
Málaflokkar um orkuvinnslu í sátt við náttúru, samstarf við nærsamfélög aflstöðva og virkjana og aðgerðir í loftslagsmálum þóttu mikilvægir í báðum könnunum, ásamt meðhöndlun og endurvinnslu úrgangs. Mikið hefur áunnist hjá okkur í loftslagsmálum síðustu ár en kolefnisspor raforkuvinnslu Landsvirkjunar er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Nánari upplýsingar er að finna í loftslagsbókhaldinu okkar og í umfjöllun um kolefnishlutleysi árið 2025.
Á árinu 2020 fer fram frekari greiningarvinna samhliða breiðara samráði við hagaðila. Niðurstöðurnar verða nýttar til að greina árangur okkar og áskoranir á sviði sjálfbærni og móta framtíðarstefnu okkar í málaflokknum.
Fyrsta útgáfa GRI-skýrslu
Landsvirkjun gefur nú út í fyrsta skipti GRI-skýrslu sem hluta af ársskýrslu 2019. Í GRI skýrslunni eru gerð skil valin viðmið í efnahags-, samfélags- og umhverfismálum sem varða starfsemi fyrirtækisins.
GRI skýrsla
Hér má sækja GRI skýrslu Landsvirkjunar 2019.