Við höfum tekið upp innra kolefnisverð til að styðja við markmið okkar um kolefnishlutleysi 2025.
Innra kolefnisverð beinir fjárfestingum og ákvörðunum í rekstri í átt að umhverfisvænni lausnum.
Hvað er innra kolefnisverð?
Innra kolefnisverð nýtist fyrirtækjum við að setja í forgang lausnir í fjárfestingum og ákvarðanir í rekstri sem draga úr losun.
Með kolefnisverðinu er settur verðmiði á losun hvers tonns koldíoxíðs (CO2) og annarra gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins. Kostnaður vegna losunar verður því sýnilegur þeim sem taka ákvarðanir innan fyrirtækisins. Það þýðir að hægt er að reikna kostnað vegna losunar inn í allar stærri fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum upp í val á nýjum virkjunarkostum.
Innra kolefnisverð Landsvirkjunar árið 2020 er 33 $/tonn CO2.
Innra kolefnisverð Landsvirkjunar byggir á mikilli gagnaöflun og greiningarvinnu og endurspeglar kostnað þeirra úrræða sem okkur standa til boða til að ná markmiði um kolefnishlutleysi.
Notkun kolefnisverðs mun hjálpa okkur að forgangsraða innkaupum á vörum sem hafa lægra kolefnisspor. Þá er annars vegar horft á innkaupaverð og hinsvegar verðmæti minni losunar. Það þýðir að mögulegt er að réttlæta kaup á dýrari vöru svo lengi sem sú vara hefur nægilega lágt kolefnisspor í samanburði við aðrar vörur.
Losun 2008-2030
Starfsemi okkar mun verða kolefnishlutlaus árið 2025 og þar leikur innleiðing innra kolefnisverðs stórt hlutverk. Með notkun innra kolefnisverðs lítum við á losun sem kostnað sem við ætlum að draga úr. Þar með höfum við myndað hvata til að forgangsraða verkefnum og innkaupum í starfsemi okkar í þágu grænna lausna sem hafa lægra kolefnisspor.
Horft til framtíðar
Landsvirkjur ætlar að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2025. Það þýðir að við höfum skuldbundið okkur til að binda þá losun sem á sér stað í framtíðinni. Því eru talsverð verðmæti fólgin í því að geta minnkað losun núna, í stað þess að verja árlega fjármunum í að binda það kolefni sem er losað. Innleiðing innra kolefnisverðs er því ekki eingöngu samfélagslega ábyrg heldur er hún einnig skynsamleg viðskiptaákvörðun sem styður við ábyrgan rekstur.
Landsvirkjun er fyrst íslenskra fyrirtækja til að taka upp innra kolefnisverð
Innra kolefnisverð er valfrjálst tól sem getur haft víðtæk áhrif á loftslagsmál. Ríki heims, stofnanir og fyrirtæki eru í auknum mæli að átta sig á því að notkun þess er ein árangursríkasta leiðin sem völ er á til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þannig styður innra kolefnisverð við sameiginleg markmið okkar allra í loftslagsmálum.
Loftslagsbókhald
Hér má sækja loftslagsbókhald Landsvirkjunar 2019.