Markmið okkar er að verða kolefnishlutlaus árið 2025.
Til að ná þessu markmiði höfum við gert aðgerðaráætlun sem byggir á kortlagninu kolefnisspors fyrirtækisins síðustu ár. Aðgerðaráætlunin felur í sér að fyrirbyggja frekari losun, finna leiðir til að draga úr losun og að auka kolefnisbindingu. Tölulegar upplýsingar um kolefnislosun fyrirtækisins er gefnar út í sérstöku loftslagsbókhaldi.
Bein losun 2019
Við stefnum að því að starfsemin verði kolefnishlutlaus 2025. Eitt af markmiðum okkar er að draga úr beinni losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni um 50% fyrir árið 2030, miðað við árið 2008. Í lok árs 2019 hafði bein losun okkar dregist saman um 36%, eða 23.400 tonn CO2 ígilda.
Kolefnisspor 2019
Kolefnisspor raforkuvinnslu Landsvirkjunar sýnir árlega losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins ásamt lífrænni kolefnislosun frá uppistöðulónum, að frádreginni áætlaðri kolefnisbindingu.
Kolefnisspor Landsvirkjunar fyrir árið 2019 er um 22 þúsund CO2-ígilda, sem jafngildir 1,6 g CO2-ígildum/kWst. Kolefnissporið hefur dregist saman um 26% á milli ára. Skýrist það meðal annars af minni nýtingu á jarðvarma í góðu vatnsári.
Heildarlosun frá rekstri fyrirtækisins* var tæp 54 þúsund tonn CO2-ígilda, þar af nam lífræn CO2-losun frá uppistöðulónum 7,7 þúsundum tonna. Losun frá jarðvarma telur mest í kolefnissporinu, eða um 60%, og þar á eftir er heildarlosun lóna tæplega 31%. Önnur losun (brennsla jarðefnaeldsneytis, losun SF6, losun vegna rafmagns- og heitavatnsnotkunar og áburðarnotkunar) er um 9%.
Binding kolefnis á vegum fyrirtækisins var 31.900 þúsund tonn CO2-ígilda árið 2019, eða 59% af allri losun fyrirtækisins.
Kolefnisspor Landsvirkjunar = losun gróðurhúsalofttegunda* + lífræn losun CO2 frá lónum - kolefnisbinding.
Heildarlosun, kolefnisbinding og kolefnisspor Landsvirkjunar árið 2019
Losun eftir umfangi
Losun gróðurhúsalofttegunda er flokkuð sem bein og óbein losun, eftir því hvar hún á sér stað í starfseminni.
Bein losun kemur frá búnaði eða auðlindum sem við eigum eða stýrum. Óbein losun verður vegna starfsemi okkar en kemur frá búnaði sem annað fyrirtæki á eða stýrir.
Umfangi starfseminnar skipt í þrjá flokka: Umfang 1, umfang 2 og umfang 3. Þessi flokkun er til þess að forðast tvíbókun á losun mismunandi fyrirtækja í sama umfang. Lífræn losun gróðurhúsalofttegunda er skráð utan umfanga.

Umfang 1
Stærsti hluti losunar Landsvirkjunar fellur undir umfang 1 (beina losun), sem tekur til jarðvarmavinnslu, uppistöðulóna, eldsneytisnotkunar og losunar SF6 (brennisteinshexaflúoríðs).
Jarðvarmavinnsla
Losun vegna vinnslu jarðvarma dróst saman um 21% á milli ára. Það skýrist meðal annars af góðu vatnsári. Það þýðir að miðlunarlón vatnsaflsstöðva voru víða full og því var hægt að draga úr nýtingu jarðvarmans og auka nýtingu vatnsafls. Þá heldur áfram að draga úr losun á Kröflusvæðinu í heild af náttúrulegum ástæðum.
Lón
Losun frá lónum eykst um 17% á milli ára. Það skýrist af mildum vetri með fleiri íslausum dögum, en losun frá lónum á sér ekki stað þegar ís liggur yfir þeim.
Eldsneytisnotkun og losun SF6
Losun vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti minnkar um 15% á milli ára. Munar þar mestu um aukna notkun lífdísils í bílaflota fyrirtækisins. Eldsneytisnotkun Landsvirkjunar hefur dregist saman um 7% frá árinu 2018, en notkun á lífdísil hefur aukist um 24%. Losun SF6 frá rafbúnaði fyrirtækisins minnkaði um 33% milli ára.
Umfang 2 og 3
Losun vegna vinnslu á keyptu rafmagni og hita (umfang 2) hefur minnkað um 25% milli ára. Önnur óbein losun sem fellur innan virðiskeðju fyrirtækisins (umfang 3) minnkaði um 17%.
Ítarlegri útlistun á losun eftir umföngum er að finna í loftslagsbókhaldi (linkur á pdf).
Skipting losunar gróðurhúsalofttegunda á milli umfanga árið 2019
Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar, sem er skilgreind innan umfanga árið 2019, var um 46 þúsund tonn CO2-ígilda. Losun var mest í umfangi 1 (90%) og þar á eftir er losun í umfangi 3 (10%). Losun í umfangi 2 var óveruleg.
Lífræn CO2 losun
Árið 2019 var lífræn losun CO2 frá lónum og vegna brennslu lífræns eldsneytis um 7,8 þúsund tonn.
Fyrir losun frá lónum og brennslu lífræns eldsneytis, telst losun á CH4 og N2O til beinnar losunar (umfang 1). Losun CO2 telst sem losun á lífrænu kolefni og er ekki tekin með í samtölu losunar samkvæmt GHG Protocol, en er skráð sérstaklega og er hluti af kolefnisspori fyrirtækisins.
Kolefnisbinding
Árið 2019 voru bundin 31.900 tonn af CO2 ígildum, eða 59% af allri losun fyrirtækisins. Það er aukning um 2% frá fyrra ári og 60% aukning frá viðmiðunarárinu 2008.
Landsvirkjun hefur stundað landgræðslu og skógrækt um áratuga skeið og hefur nú einnig hafið verkefni tengd endurheimt votlendis. Á undanförnum árum hefur áhersla aukist á þátt kolefnisbindingar við endurheimt landgæða og markmiðið er að auka þessa bindingu verulega á næstu árum.
Stefnt er að því að binding kolefnis verði 60.000 tonn CO2 ígilda árið 2030, sem er þreföldun miðað við viðmiðunarárið 2008.
Orkuskipti bílaflotans
Hlutfall hreinorkubíla hjá Landsvirkjun var 31% árið 2019. Með hreinorkubílum er átt við rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla. Landsvirkjun setti sér það markmið að árið 2020 yrðu 25% bílaflotans okkar hreinorkubílar og því ljóst að vinnu okkar í orkuskiptum miðar vel. Hreinir rafmagnsbílar eru um 21%, tengiltvinnbílar tæp 8% og vetnisbíll fyrirtækisins telur sem tæpt prósent.
Loftslagsbókhald 2019
Tölulegar greiningar á umhverfisþáttum eru öflugt tæki fyrir markvissa vinnu gegn losun og öðrum mögulegum umhverfisáhrifum.
Tölulegar upplýsingar um kolefnislosun Landsvirkjunar eru gefnar út í sérstöku loftslagsbókhaldi og eftir aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol staðalsins. Útgáfan er í takti við aukna áherslu Landsvirkjunar á aðgerðir í loftslagsmálum.
Gerð er grein fyrir ýmsum öðrum upplýsingum um umhverfismál í starfsemi Landsvirkjunar í sjálfbærniskýrslu GRI, auk þess sem útgefnar rannsóknar- og vöktunarskýrslur eru aðgengilegar á vefnum okkar og á gegnir.is. Við höfum gefið út sérstakar umhverfisskýrslur um áherslur og frammistöðu í umhverfismálum frá árinu 2006. Frá árinu 2016 hafa þessar upplýsingar verið gefnar út í ársskýrslu fyrirtækisins.
Loftslagsbókhald
Hér má sækja loftslagsbókhald Landsvirkjunar 2019.