Section
Segment

Árlega stundar Landsvirkjun ítarlega vöktun og umhverfisrannsóknir á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins í samstarfi við rannsóknastofnanir og sjálfstæða sérfræðinga.

Segment

Lágmörkun umhverfisáhrifa

Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemi okkar hefur í för með sér.

Það þýðir að möguleg umhverfisáhrif eru metin strax á undirbúningsstigi virkjunarkosta, á meðan á framkvæmdum stendur og svo eftir að rekstur aflstöðva hefst. Tilgangur þessa er að meta hvort og þá hvernig starfsemin hefur áhrif á náttúru, lífríki og samfélag svo hægt sé að grípa til mótvægisaðgerða ef þarf.

Mikill fjöldi skýrslna er gefinn út árlega þar sem niðurstöður vöktunar og rannsókna á náttúru og lífríki við orkuvinnslusvæði Landsvirkjunar eru kynntar.

Nálgast má útgefnar skýrslur á gegnir.is

Section
Segment

Mótvægisaðgerðir við Hálslón

Hálslón er miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, norðan Vatnajökuls. Í nágrenni lónsins fer fram umfangsmikil vöktun ár hvert, m.a. á landbroti og áfoki úr lónstæðinu. Landgræðsla ríkisins hefur annast úttektir á svæðinu frá árinu 2013.

Landbrot við Hálslón er vaktað með árlegum mælingum og mælist víða við strendur Kringilsárrana. Há vatnsstaða og óhagstætt veðurfar haustið 2018 juku frekar þar á og á köflum nær landbrotið inn fyrir mörk friðlands í Kringilsárrana. Gripið hefur verið til mótvægisaðgerða og árið 2019 gerði Landsvirkjun 180 metra bakkavörn við norðurenda Kringilsárrana. Bakkavörninni er ætlað að koma í veg fyrir frekara landbrot þegar lónstaða er há. Gert er ráð fyrir að sumarið 2020 verði bakkavörnin framlengd um 200 metra til vesturs, upp með farvegi Kringilsár.

Segment
Segment
Segment

180 metra löng bakkavörn var gerð við norðurenda Kringilsárrana við Hálslón síðasta sumar. Bakkavörninni er ætlað að draga úr frekara landbroti á svæðinu.

Segment

Landgræðsla ríkisins annast einnig reglubundið eftirlit og umsjón með áfoki, gróðurvernd og uppgræðslu við Hálslón. Niðurstöður sýna að áfok er enn virkt við Hálslón og því verður áfram unnið að uppgræðslu á svæðinu. Þar sem breytilegt er frá ári til árs hvar mest áfok verður (háð t.d. veðurfari) er ekki hægt að fullyrða að jafnvægi sé náð á þeim svæðum þar sem ekki varð áfok síðasta sumar. Þar af leiðandi verður eftirliti og vöktun haldið áfram í samræmi við skilyrði virkjunarleyfis. Samhliða uppgræðslu var unnið að hreinsun fokefna á svæðinu og gekk sú vinna vel.

Section
Segment

Við austurströnd Hálslóns var gróður styrktur með áburði svo hann gæti betur tekið á móti áfokssandi. 68,7 tonnum af áburði var dreift á um 484 hektara svæði.

Segment

Eftirlit eftir að rekstur hefst

Á síðustu sex árum hefur Landsvirkjun gangsett þrjár nýjar aflstöðvar: Búðarhálsstöð árið 2014, Þeistareykjastöð árið 2017 og Búrfell II árið 2018. Áhrifasvæði þessara stöðva falla undir vöktunaráætlanir þar sem lagt er mat á hvort og þá hvernig starfsemin hefur áhrif.

Segment

Lífríki nýs Sporðöldulóns

Sporðöldulón er uppistöðulón Búðarhálsvirkjunar sem var gangsett árið 2014.

Vatnalífsrannsóknir í lóninu á árunum 2014 til 2018 hafa veitt víðtækar upplýsingar um framvindu vistkerfis í nýmynduðu virkjunarlóni.

Niðurstöðurnar eru í takti við það sem oft sést í nýjum stöðuvötnum, en á óvart kom að efnainnihald vatnsins virtist sambærilegt og í eldri vötnum og nærliggjandi búsvæðum. Næringarefni úr undirliggjandi jarðvegi hafa því verið óveruleg og því átti sér ekki stað hefðbundin losun jarðefna sem ýta undir vöxt lífvera og frjósemi fiska í nýjum stöðuvötnum.

Segment
Niðurstöður vatnalífsrannsókna í Sporðöldulóni eru í takti við það sem oft sést í nýjum stöðuvötnum; myndun eiginlegs vatnsbotns, og þar með myndun lífræns sets, tekur tíma.
Segment

Niðurstöður rannsóknaveiða benda til að bleikja hafi fljótt orðið ríkjandi fisktegund í lóninu og bendir hár holdastuðull hennar til þess að ungir fiskar í vexti hafi haft nægilega fæðu. Í ljósi þess að vatnsborðssveiflur í lóninu eru litlar má búast við að fjöruvist dafni með tilheyrandi fæðulindum fyrir fiska. Þetta gæti stuðlað að góðum vaxtarskilyrðum í lóninu, sér í lagi fyrir urriðastofn vatnsins.

Vatnalífsrannsóknin var unnin í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og skoðað verður með framhald á næstu árum.

Segment

Búrfellsstöð II og Þeistareykjastöð

Ný Búrfellsstöð er ein sjö aflstöðva á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Starfsemi hennar fellur undir fyrirliggjandi vöktunaráætlanir á svæðinu, en þar hefur farið fram umhverfisvöktun síðan árið 1993. Stöðin hefur verið starfrækt í eitt ár og ekki er talin þörf á viðbótarvöktun vegna starfsemi hennar.

Á Þeistareykjum á Norðausturlandi hefur verið fylgst náið með áhrifum orkuvinnslunnar á jarðhitaauðlindina, náttúru og umhverfi. Fyrstu vísbendingar vöktunar eru í samræmi við vöktunaráætlanir.